Sporðskurðarvél sem bætir nýtingu og afköst

Fyrirtækið 4FISH í Grundarfirði hefur kynnt nýja fiskvinnsluvél sem Unnsteinn Guðmundsson hefur hannað. Um er að ræða sporðskurðarvél sem stuðlar að bættri flakanýtingu og þar með auknum verðmætum. Unnsteinn hefur séð um flökunarvélarnar hjá G. Run hf. í Grundarfirði í næstum 30 ár og er því enginn nýgræðingur á þessu sviði.

„Ástæða þess að ég réðist í þetta verkefni var ótryggur fráskurður sporðs í flökunarvélum þar sem sporðurinn átti það til að stingast inn í sköfuhnífa og valda göllum og losi í flökum. Einnig leggjast flökin betur á færibandið sem flytur þau yfir á roðvél ef þessi vél er notuð,“ segir Unnsteinn í samtali við Fiskifréttir.

Hugmyndin að vélinni átti sér nokkurn aðdraganda, en í febrúar sl. var frumgerð hennar smíðuð og reynd í fiskvinnslu G Run hf. Vegna góðrar útkomu úr prófunum og mælingum var ákveðið að láta smíða fullbúna vél hjá Geislatækni í Garðabæ.

„Sporðskurðarvélin er staðsett við hausara þannig að hausaramaður sér um sporðskurðinn og eftir nokkra daga þjálfun dró það ekkert úr afköstum mannsins. Festur og stopp flökunarvéla heyra nánast sögunni til og ending bits í flökunarhnífum er mun betri. Vélin er fyrirferðarlítil og hægt er að koma henni fyrir við hvaða hausara sem er. Eftir 5 mánaða prufu og nánast hnökralausa keyrslu á vélinni er niðurstaðan sú að mun minna af flakinu fer í marning og blokkarafurðir miðað við sama tímabil 2013. Afköst hafa aukist í vinnslunni. Erfitt að meta nákvæmlega hvað vélin á stóran þátt í þeirri afkastaaukningu en flakagallar og tætingur í roðvélum hefur minnkað til muna. Þetta mun hjálpa til við 3D myndgreiningu fyrir vatnsskurðarvélar sem nú eru að ryðja sér til rúms í fiskvinnslum ásamt því að spara þeim vélum og mannshendinni um 10% af skurðarvinnu flaks. Flutningur flaka frá flökunarvél yfir á roðvél varð mikið betri og mætti jafnvel spara mann þar í ákveðnum tegundum fisks,“ segir Unnsteinn.

Hann kveðst sannfærður um að þessi vél geti gert gæfumuninn í flökun á keilu, löngu og steinbít ásamt öðrum tegundum svo sem þorski og minnkað los í ýsu.

Því má bæta við að vélin verður kynnt á sameiginlegum bási Grundarfjarðar 10A á sjávarútvegssýningunni.

gudjon@fiskifrettir.is